Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Lifum, lærum og njótum

10.06.2004

Ársfundur ÁTVR var haldinn sl. föstudag og var m.a. kynnt nýtt slagorð Vínbúða; Lifum, lærum og njótum.

Slagorðið endurspeglar þær breytingar sem áformaðar eru hjá vínbúðum og áherslubreytingar fyrirtækisins. Tilgangur slagorðsins er að fanga athygli viðskiptavinarins og efla hugarflug hans og gefa þeim og starfsmönnum sameiginlega sýn á það hvert fyrirtækið stefnir.

Lifum, lærum og njótum má m.a. túlka svo: Lífið getur verið heilmikil glíma en við megum ekki gleyma að staldra við af og til og minna okkur á að nota vel þann tíma sem okkur er gefinn. Njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða og læra og þroskast til þess að geta lifað lífinu lifandi. Góð vín eru yndisauki sem við skulum njóta og fara vel með eins og aðrar lífsins lystisemdir.

Þá var var hleypt af stokkum kynningu á víni með grillmatnum sem mun standa í vínbúðunum út júnímánuð. Gefinn var út bæklingur um Vínið með grillmatnum með kynningarverði á vínum. Vín sem hæfa vel grillmat verða sérstaklega merkt í hillum vínbúðanna.


Hildur Petersen formaður stjórnar kynnti nýjar áherslur í stefnu ÁTVR undir yfirskriftinni "Það á að vera gaman að versla í vínbúðum"

Hún rakti stefnu, hlutverk og leiðarljós ÁTVR og lagði út af því. Einnig sagði hún frá niðurstöðum úr nokkrum könnunum sem voru gerðar meðal viðskiptavina vínbúða til að afla vitneskju um þarfir og óskir þeirra.

Einu skrefi lengra

Hildur tók fram að sú bætta vínmenning, sem hefur þróast hér á landi á síðustu árum, hafi skapað jarðveg til þess að taka skref fram á við til að efla þjónustu vínbúðanna og skipa viðskiptavininn í öndvegi. Það væri skýrt stefnumið fyrirtækisins að gera viðskiptavininn ánægðan og auka ánægju hans: Markmiðið er: "Að viðskiptavinum okkar þyki gaman að versla í vínbúðunum og líti á það sem fræðandi upplifun. Byggja upp þjónustu okkar með þarfir hinna ólíku viðskiptavina í hug. Þjónusta vínbúðanna byggist á hvatningu til að njóta áhugaverðar tengingar matar og vína. Þarfir viðskiptavina séu hafðar í fyrirrúmi og boðið verði upp á námskeið og kynningar sem geri leiðarljósið að veruleika."

Nú þegar hafa verið þemadagar í vínbúðunum, t.d. fyrir síðastliðin jól, en þá var gefinn út bæklingur um vínin með jólamatnum, í apríl var haldin kynning á ítölskum vínum og nú vínið með grillmatnum fyrir sumarið.

Hildur boðaði enn frekari áform um að uppfylla ýmsar af óskum viðskiptavinanna sem fram komu í könnununum. Til dæmis:
Þemadaga í vínbúðum og afslátt tengdan þeim
Námskeið og kynningar fyrir viðskiptavini
Kæla í vínbúðunum í Kringlu og í Smáralind
Gæðavín verði gerð sýnilegri
Gjafapakkningar og umbúðir
Óáfeng vín
Sérsverslun á vefnum með enn meira úrval en í Heiðrúnu og Kringlu og fleira.

Hildur tók einnig fram að ÁTVR er samfélagslega ábyrgt fyrirtæki og ákveðið hefur verið að hefja samstarf við umferðastofu og jafningjafræðslu jafnframt því að styrkja umhverfismál

Það er því margt framundan hjá vínbúðunum og vilji stjórnar er að stefna fyrirtækisins verði framkvæmd á þann hátt að við séum ekki sporgöngumenn væntinga viðskiptavina okkar heldur skrefi á undan þeim.