Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Jólabjórinn 2012

08.11.2012

Í Vínbúðunum hefst sala jólabjórs 15. nóvember og lýkur á þrettándanum. Á meðfylgjandi mynd má sjá söluþróun jólabjórs  frá árinu 1999 – 2011. Árið 1999 var selt magn 57 þús. lítrar og jókst árlega til ársins 2006, en þá var selt magn 342 þús.  lítrar. Aðeins dró úr sölu árin 2007 og 2008 en eftir það hefur verið stöðug aukning og jókst t.d. salan í lítrum talið um 42% á milli áranna 2010 og 2011. Á undanförnum árum hefur tegundum fjölgað og  meira magn verið í boði sem á sinn þátt í aukinni sölu, en á árum áður var magnið oft mjög takmarkað.
 
Jólabjórinn 2012

Heildarfjöldi tegunda er svipaður og í fyrra en von er á 21 tegund  í sölu. Örlitlar breytingar eru á tegundum en í ár eru sjö tegundir sem ekki voru í sölu í fyrra, þar af þrjár íslenskar. Mikið kapp hefur verið lagt á að dreifa jólabjórnum í Vínbúðir þannig að sem flestar tegundir séu fáanlegar 15. nóvember. Dreifingin ræðst hins vegar af því magni sem fáanlegt er frá framleiðanda eða innflytjanda. Dæmi eru um að vara hafi ekki verið fáanleg frá birgja en von er á þeim tegundum á næstu dögum. 
Í fyrra biðu viðskiptavinir spenntir eftir jólabjórnum  sem sést best á því að fyrstu  fimm dagana, þ.e. 15. – 19. nóvember, seldust um 107 þús. lítrar eða rúmlega 20% af því magni sem selt var allt tímabilið.