Sleppa valmynd og fara beint í meginmál

Mjög góð afkoma hjá ÁTVR þriðja árið í röð

27.03.2012

Mjög góð afkoma hjá ÁTVR þriðja árið í röðHagnaður ÁTVR á árinu 2011 var rúmlega 1,2 milljarðar króna.  Samdráttur í sölu áfengis var 2,7% og samdráttur í sölu tóbaks var 4,9%.  Þrátt fyrir samdráttinn er afkoman með því besta frá árinu 2002 en þá var innheimtu tóbaksgjalds breytt og gjaldið ekki lengur hluti af hagnaði fyrirtækisins.  Heildartekjur voru 25,4 milljarðar, en þar af voru tekjur af sölu áfengis 17 milljarðar og tekjur af sölu tóbaks 8,4 milljarðar.

 

Árið 2011 er þriðja samdráttarárið í röð. Árið 2008 þegar salan í lítrum fór hæst voru seldir 20.387.345 lítrar. Árið 2011 voru seldir 18.437.968 lítrar. Samtals nemur samdrátturinn á þessum þremur árum tæpum tveimur milljónum lítra eða um 10%. Er það verulegur samdráttur og verður að fara aftur til ársins 2006 til þess að finna sambærilega sölu.

 

Tóbakssalan hefur dregist enn meira saman. Heildarsamdrátturinn í sölu vindlinga á síðustu þremur árum nemur um 47.607 þúsund stykkjum eða um 15, 7%. Á sama tíma hefur ársverkum hjá ÁTVR fækkað um 45.

 

Viðskiptavinir ÁTVR eru ánægðir með þjónustuna en ÁTVR er nú annað árið í röð með hæstu einkunn í Íslensku ánægjuvoginni í hópi smásölufyrirtækja.

 

Hér má sjá söluþróun áfengis frá árinu 1990. Taflan sýnir prósentubreytingu í lítrum á milli ára.

Hér má sjá söluþróun áfengis frá árinu 1990