Margir muna eflaust eftir 1.mars 1989 þegar bjórsala var leyfð á Íslandi eftir 74 ára bann. Eftirfarandi myndir og fréttir birtust í Morgunblaðinu við það tilefni.
"Það þýðir ekkert að æsa sig út af þessu" segir verslunarstjóri ÁTVR að Stuðlahálsi
STARFSFÓLK í tveimur áfengisútsölum ÁTVR, Kringlunni og Stuðlahálsi, sem Morgunblaðið heimsótti í gær, tók hinni yfirvofandi bjórsölu með ró. Bjarni Þorsteinsson, verslunarstjóri á Stuðlahálsi, sagðist bara líta á daginn í dag sem venjulegan vinnudag - það þýddi ekkert að æsa sig út af þessu. Verslunarstjóri Kringlunnar, Sævar Skaptason, var líka hvergi banginn. Verslunin hefði lifað af tvenn jól og ætti því að þola þetta líka.
Ný áfengisútsala ÁTVR opnar í dag á Stuðlahálsi. Þar verður lögð áhersla á bjór og er ætlunin að bjóða í framtíðinni upp á fjölbreyttara úrval bjórtegunda en í öðrum vínbúðum. Í dag verða þó einungis á boðstólum sömu tegundir og annars staðar. Auk þess að vera með útsölu á þessum stað verður húsnæðið notað sem lagerrými undir allan innflutta bjórinn.
Fyrsti dagur bjórsins Um 340.000 bjórdósir seldar
LÁTA mun nærri að um 340.000 dósir af bjór hafi verið seldar úr verslunum ÁTVR í gærdag er bjórsala var leyfð í fyrsta sinn síðan árið 1915. Á höfuðborgarsvæðinu voru seldar 213.000 dósir af bjór. Í samtölum Morgunblaðsins við verslunarstjóra ÁTVR kom fram að tegundirnar Löwenbräu og Egils Gull voru vinsælastar. Budweiser seldist upp en mjög lítið magn af honum kom til landsins fyrir bjórdaginn eða einn gámur.
Af einstökum verslunum var salan mest í vínbúð ÁTVR í Kringlunni eða um 46.000 dósir. Salan var svipuð á Snorrabraut og Lindargötu, rúmlega 38.000 dósir á Snorrabraut en tæplega 38.000 dósir á Lindargötu. Í Mjóddinni var salan tæplega 27.000 dósir og í hinni nýju búð upp á Stuðlahálsi var salan 35.000 dósir. Í Hafnarfirði var salan tæplega 29.000 dósir. Samtals gerir þetta 213.000 dósir.
Sævar Skaftason verslunarstjóri í Kringlunni segir að örtröð hafi verið fyrir utan búðina er þeir opnuðu í gærmorgun. Síðan hafi verið jöfn og mikil umferð fólks allan daginn. Auk bjórsins seldist töluvert magn af öðru áfengi í búðinni.
Bjarni Þorsteinsson verslunarstjóri í hinni nýju vínbúð upp á Stuðlahálsi segir einnig að frá því að þeir opnuðu kl. 10 í gærmorgun hafi verið stöðug og mikil umferð fólks í búðina allan daginn.
Erling Ólafsson verslunarstjóri á Snorrabraut segir að Löwenbrau og Egils Gull hafi verið mest seldu tegundirnar fyrsta daginn og tóku allir aðrir verslunarstjórar undir það. Þessi samanburður er þó villandi að því leyti að lítið magn af Budweiser var til og seldist hann upp. Kaiser var aðeins til á flöskum og því eingöngu seldur á veitingahúsum og Tuborg kom ekki í verslunina á Stuðlahálsi fyrr en síðdegis.
Á Akureyri höfðu starfsmenn Sanitas vart undan að flytja bjórinn í verslun ÁTVR, en Haukur Torfason útibússtjóri sagði að fljótt hefði horfið af brettunum og því þurft að bæta reglulega við birgðirnar. Á Akureyri seldust tæplega 40 þúsund dósir af Sanitas-bjórtegundunum þremur og um 6.000 dósir af Egils gulli. Haukur sagði að um 2,5 milljónir króna hefðu farið í gegnum verslunina í gær. Í gærkvöldi unnu starfsmenn við að afgreiða pantanir á þá staði á Norðurlandi þar sem ekki er áfengisútsala.
Á Ísafirði seldust um 15.000 dósir af bjór og var Löwenbrau-bjórinn vinsælastur fyrir vestan. "Það voru nokkrir mættir á undan mér í morgun," sagði Brynjar Júlíusson á Seyðisfirði, en þar seldust tæplega 9.000 dósir af bjór í gær. Á Siglufirði seldust tæplega 5.000 dósir af bjór.
Á Ólafsvík voru seldar tæplega 3.500 dósir af bjór í gær og voru menn spenntastir fyrir Löwenbraubjórnum, að sögn Sigríðar Þóru Eggertsdóttur verslunarstjóra. Á Sauðárkróki keyptu menn hæfilegt magn af bjór, að sögn Stefáns Guðmundssonar útibússtjóra, en hann vildi ekki gefa upp nákvæmari tölur þar um.
"Ég hef aldrei lent í öðru eins," sagði Birgir Axelsson, útsölustjóri ÁTVR í Keflavík. Löng biðröð myndaðist fyrir utan áfengisútsöluna þegar leið að opnun verslunarinnar. Birgir sagði að um 15 þúsund dósir hefðu selst, fyrir 1,5 milljónir.