Vikan fyrir verslunarmannahelgi er ein annasamasta vika ársins í Vínbúðunum. Gera má ráð fyrir um 125 þúsund viðskiptavinum í vikunni eða 25 – 30% fleiri en vikuna á undan. Árið 2010 komu 124 þúsund viðskiptavinir sem er svipaður fjöldi og árið áður. Alls voru seldir 744 þúsund lítrar af áfengi þar af 587 þús. lítrar af bjór. Eins og í hefðbundinni viku þá koma flestir viðskiptavinir á föstudegi. Ef miðað er við fjöldann undanfarin ár má gera ráð fyrir um 43 þúsund viðskiptavinum þann dag.Reynslan sýnir að flestir koma á milli kl. 16 – 18 eða allt að 7 þúsund viðskiptavinir á klukkustund. Árið 2010 voru seldir 287 þús. lítrar föstudaginn 30. júlí þar af 228 þús. lítrar af bjór. Flest bendir til þess að viðskiptavinafjöldi fyrir verslunarmannahelgi nú verði svipaður og í fyrra og er undirbúningur í fullum gangi til að hægt verði að taka vel á móti viðskipavinum.
