Í ár fagnar ÁTVR 85 ára afmæli sínu. Það er því af mörgu að taka þegar sagan er skoðuð og til gamans höfum við tínt saman nokkrar áhugaverðar myndir og fréttir til fróðleiks og skemmtunar.
Um síðustu aldamót var mikil þjóðernisvakning á Íslandi. Samfara þessari vakningu varð það almennt álit manna að áfengisneysla væri svo úr hófi að hún væri til hindrunar framfaramálum. Umræður um áfengisneysluna leiddu til þjóðaratkvæðagreiðslu um bann við framleiðslu, neyslu og innflutningi áfengis. Kom bannið til framkvæmda 1912. Banninu var aflétt að hluta til árið 1922. Þá þvinguðu Spánverjar Íslendinga til að kaupa vín frá Spáni í stað saltfisks, sem þeir keyptu frá Íslandi. Innflutningur var þá heimilaður á áfengi undir 21% að styrkleika. Öl var þó áfram bannað.
Áfengisverzlun ríkisins - ÁVR - var sett á laggirnar 1922. Fyrsti forstjóri verslunarinnar var skipaður í embætti 3. febrúar 1922 og hefur sá dagur verið talinn stofndagur.
Árið 1922 voru áfengisverslanir opnaðar í sjö kaupstöðum: Í Reykjavík, Hafnarfirði, Vestmannaeyjum, á Ísafirði, Siglufirði, Akureyri og Seyðisfirði. Um miðbik aldarinnar var verslunum í Hafnarfirði, Vestmannaeyjum, á Ísafirði og Akureyri lokað í samræmi við vilja meirihluta kjósenda og var svo í nokkur ár. ÁTVR rekur nú 46 vínbúðir auk vefverslunar.
Á meðfylgjandi mynd má sjá auglýsingu í blaðinu ,,Verkamaðurinn" sem gefið var út á Akureyri. Þess má geta að mikið var talað um áfengismálið á Akureyri á þessu ári og skiptust menn í tvær fylkingar eftir afstöðu sinni til málsins; bannmenn og andbanninga.
Í auglýsingunni sést að vöruúrval verslunarinnar skiptist í 9 flokka frá portvínum til kampavína og að afgreiðslutíminn er frá 9-12 að morgni og 13 til 20 eftir hádegi.