Júlíus Steinarsson, vínráðgjafi - Sjá freyðivínin
(úr Vínblaðinu, 4.tbl.8.árg.)
Í gegnum aldirnar hefur freyðing vína vakið athygli og hefur hennar verið getið í skrifum Forn-Grikkja og Rómverja. Ástæðan fyrir loftbólunum hefur verið talin tengjast ýmsum undrum, allt frá sjávarföllunum til góðra og illra anda. Sumir kölluðu þennan leyndardómsfulla freyðandi drykk vín djöfulsins.
Á miðöldum vakti það eftirtekt að vín frá Champagne héraðinu hafði tilhneigingu til að freyða en þetta var talinn galli á þeim tímum. Upphaflega var munkinum fræga Dom Perignon skipað af yfirboðurum sínum að koma í veg fyrir að vínið freyddi, því þrýstingurinn í flöskunum olli því að margar þeirra sprungu í vínkjallaranum.
Á 18. öld, þegar vísvitandi framleiðsla á freyðivíni var hafin, þurftu starfsmenn í vínkjöllurum að bera þungar járngrímur til að verjast meiðslum þegar flöskurnar sprungu skyndilega.
Bretar voru fyrstir til að líta á tilhneigingu vína frá Champagne héraðinu til að freyða sem æskilegan eiginleika og reyndu mikið að skilja hvers vegna loftbólurnar mynduðust.
Englendingar þróuðu einnig sterkara gler sem sprakk ekki jafn auðveldlega og það franska, auk þess sem þeir endurvöktu notkun tappavírs sem Rómverjar höfðu upphaflega notast við en hafði fallið í gleymsku eftir hrun Rómarveldis.
Árið 1622 uppgötvaði breski vísindamaðurinn Christopher Merret að með því að bæta sykri í næstum hvaða vín sem er væri hægt að láta það freyða.
Nú fer í hönd sá árstími þar sem hvað oftast er skálað í freyðivíni. Þá er gott að geta glöggvað sig á upplýsingunum á miða
freyðivínsflöskunnar.
Brut: er sama og þurrt eða 5 g eða minna af sykri í víninu
Seco (Sec, Trocken): þá eru 10 g eða minna af sykri í víninu
Semi-Seco (Demi-Sec, Halbtrocken): 10-20 g af sykri í lítra
Dulce (Doux): 20-30 g sykri í lítra
Hvenær hentar best að nota Brut og hvenær Dulce? Það er ekkert rétt eða rangt í þessu sambandi en flestir eru sammála því að það henti betur að hafa vínið þurrara í fordrykk og sætara í eftirréttina (sætt á móti sætu). Hér á landi hefur þó skapast sú hefð að vera með sætara freyðivín í fordrykk.