Fréttin hefur verið uppfærð
Alls seldust um 23,7 milljón lítrar af áfengi í Vínbúðunum á árinu 2023. Til samanburðar var sala ársins 2022 rúmlega 24 milljón lítrar og því um 2% minni sala nú en í fyrra.
Sala dróst saman í flestum söluflokkum, en þó var aukning í einhverjum þeirra. Um 4% söluaukning var á freyðivíni og rósavíni auk aukningar á sölu í minni flokkum s.s. ávaxtabrandí, kryddvíni, líkjörum og bitter. Sala á rauðvíni dróst saman um tæp 7%, hvítvíns um 0,5% og sala lagerbjórs minnkaði um 1,2%. Mestur samdráttur var í flokkunum öl, sake og mjöður, ávaxtavín og styrkt vín, þar sem salan var 9-17% minni en árið áður.
Sala tóbaks dróst saman í öllum flokkum, sem er svipuð þróun og undanfarin ár. Mestur samdráttur var í neftóbaki um tæp 19%. Samdráttur í sölu á sígarettum (vindlingum) var tæp 9% í samanburði við árið 2022.