Verðlagning ÁTVR á vörum í Vínbúðum er ákveðin í lögum sem samþykkt eru á Alþingi, sem og í reglugerð sem fjármála- og efnahagsmálaráðuneytið setur. Í lögunum kemur fram að álagning ÁTVR skal miða við áfengisprósentu, 18% álagning á áfengi með 22% eða lægra hlutfall af vínanda og 12% ef hlutfall vínanda er meira en 22%.
Álagningin er þannig bundin í lög og leggst ofan á innkaupsverð frá birgjum. Birgjar hafa algerlega frjálsar hendur um hvernig þeir verðleggja sína vöru til ÁTVR. Birgjar geta breytt verði mánaðarlega og tekur verðbreytingin almennt gildi 1. dags mánaðar á eftir. Áfengisgjald sem innheimt er af ríkinu, sem er breytilegt eftir styrkleika og tegund, er lögbundið og ákvarðað af Alþingi. Áfengisgjald leggst á við innflutning vöru og er hluti af innkaupsverði frá birgjum.
Hér má sjá dæmi um hlutfallslega skiptingu söluverðs á nokkrum tegundum:
Endanlegt söluverð í Vínbúðunum samanstendur því af innkaupsverði sem innifelur áfengisgjald, lögbundinni álagningu og virðisaukaskatti.
ÁTVR tekur því engar ákvarðanir um verð á einstökum vörum heldur framfylgir þeim lögum og reglum sem um sölu á áfengi gilda.