Ákveðið hefur verið að loka Vínbúðinni í Garðabæ á núverandi stað frá og með 1. janúar 2011. Ákvörðunin er tekin í ljósi þess að leigusamningur um húsnæðið rennur út um áramót en Vínbúðin í Garðabæ hefur verið á þessum stað frá því í maí 2001.
Staðsetning og stærð húsnæðisins sem Vínbúðin í Garðabæ er í hentar illa fyrir verslun af þessu tagi og á síðustu misserum hefur mikið af verslun flust af svæðinu. Þá hefur sala í Vínbúðinni í Garðabæ á undanförnum árum dregist hægt og rólega aftur úr almennri þróun sölu, bæði á landsvísu og á höfuðborgarsvæðinu. Sem dæmi má nefna að magnsala Vínbúðarinnar í Garðabæ er um 40 – 50% minni en meðalsala Vínbúða með svipað umfang og opnunartíma.
ÁTVR rekur tvær Vínbúðir í Kópavogi, bæði á Dalvegi og í Smáralind og eina Vínbúð í Firði í Hafnarfirði. Í framhaldi af lokun Vínbúðarinnar í Garðabæ verður hugað að framtíðarskipulagi Vínbúða á þessu svæði með það að markmiði að staðsetning og aðkoma verði sem best fyrir viðskiptavini.