Í dag opnar Vínbúðin á Seyðisfirði í nýju og stærra húsnæði að Hafnargötu 4a. ÁTVR festi kaup á húsinu í vor en þar var áður lögreglustöð bæjarins til húsa. Mikið hagræði er í breytingunni fyrir viðskiptavini því nú verður verslunin í sjálfsafgreiðsluformi en fram að til þessa hefur verið afgreitt yfir borð. ÁTVR á sér langa sögu á Seyðisfirði því þar hefur verið rekin áfengisverslun allt frá stofnun ÁTVR árið 1922. Um áratuga skeið var Vínbúðin í húsnæði við Hafnargötu 11. Það húsnæði er í niðurníðslu en ríkt hefur óvissa um örlög hússins. Nú er unnið að því í samstarfi við heimamenn að finna framtíðarlausn á því máli og vonandi tekst að ljúka því máli sem fyrst.
Opnunartími Vínbúðarinnar verður lengdur en nú verður opið á föstudögum frá klukkan 14 – 18 en mánudaga til fimmtudaga verður áfram opið frá 17 – 18.
Auk Vínbúðarinnar á Seyðisfirði eru reknar Vínbúðir á Þórshöfn, Vopnafirði, Egilsstöðum, Neskaupsstað, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Djúpavogi og á Höfn. Þessar Vínbúðir tilheyra sameiginlegri svæðisumsjón verslunarstjórans á Seyðisfirði, Brynjars Júlíussonar.